Kristín Dögg Höskuldsdóttir
Fréttir

Krefjandi starfsumhverfi á óvenjulegum tímum

Kristín Dögg Höskuldsdóttir var ráðin í starf ráðningarstjóra hjá Hreint í byrjun ársins. Hún er með BA gráðu í uppeldis-, menntunar- og atvinnulífsfræði frá Háskóla Íslands og diplóma í mannauðsstjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Kristín hefur víðtæka reynslu af mannauðs- og fræðslumálum og hefur m.a. starfað sem starfsmannastjóri hjá Securitas og mannauðsstjóri hjá Subway.

Rúnar Svavarsson

Rúnar Svavarsson

11. nóvember 2020

Verkefni ráðningarstjóra Hreint eru m.a. að ráða starfsfólk, halda utan um breytingar á starfshögum þess, skipuleggja afleysingar og kennslu og hvetja það til góðra verka. Kristín kom til starfa hjá Hreint rétt áður en heimsfaraldur kórónuveiru skall á og segir hún að vegna farsóttarinnar hafi starf hennar þróast með öðrum hætti en hún hafi búist við. Ráðningarferli starfsfólks og önnur samskipti fari nú í meira mæli fram með símtölum og í gegnum tölvu og tölvupósta. Það hafi sína kosti en einnig galla því það geti verið bæði flókið og erfitt að ráð starfsfólk í vinnu með þeim hætti.

Kristín segir einnig að starfsumhverfið hafi tekið breytingum vegna kórónuveirunnar. Hreint hafi þurft að ráða til sín fleira starfsfólk enda standi ræstingafyrirtækin í framlínunni í baráttunni við veiruna. „Til að mæta þörfum viðskiptavina var sett á fót ný þjónusta hjá Hreint með sérþjálfuðu starfsfólki sem sér um sótthreinsun á vinnustöðum. Eftirspurning hefur verið mikil enda líður okkur öllum betur í hreinu og öruggu umhverfi.“

Gott orðspor og ánægt starfsfólk

Hreint fékk nýverið viðurkenningu frá Creditinfo fyrir að vera framúrskarandi fyrirtæki 2020, sjötta árið í röð. Þá fékk Hreint einnig viðurkenningu frá Viðskiptablaðinu og Keldunni fyrir að vera fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2020, fjórða árið í röð. Viðurkenningarnar staðfesta góðan árangur Hreint og frábæra vinnu starfsfólks.

Aðspurð hvort viðurkenningarnar hjálpi til við að laða gott fólk að fyrirtækinu segir Kristín að svo sé vissulega enda gefi þær til kynna að Hreint sé traust og gott fyrirtæki. „Gott orðspor fyrirtækis skiptir máli þegar fólk leitar sér að vinnu og að fyrirtækið hlúi að starfsfólki sínu og standi við það sem er lofað. Ánægður starfsmaður er þó alltaf besta auglýsingin,“ segir Kristín og bætir við að það komi henni á óvart að fleiri íslendingar skuli ekki sækja um starf hjá Hreint, sérstaklega þegar horft er til atvinnuleysistalna og mikilvægis ræstingafólks á þessum óvenjulegu tímum.