Fréttir

Útskrift úr Íslenskuskóla Hreint

Hreint ehf.

Hreint ehf.

20. nóvember 2015

Starfsmenn Hreint á Landspítalanum voru á dögunum útskrifaðir úr Íslenskuskóla Hreint. Markmiðið með námi þessara metnaðarfullu starfsmanna Hreint er að auka sjálfsöryggið í framandi landi og læra undirstöðuatriði málsins. Það nýtist þeim bæði í leik og starfi. Við hjá Hreint viljum vera til fyrirmyndar enda starfrækja fá fyrirtæki sérstakan tungumálaskóla fyrir starfsmenn sína.

Um fimmtungur af starfsfólki Hreint eru erlendir ríkisborgarar eða nýir Íslendingar. Nemendur Íslenskuskólans eiga það sameiginlegt að vilja bæta tungumálakunnáttu sína og verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Við settum Íslenskuskóla Hreint á laggirnar árið 2008. Síðan þá hafa tugir hópa starfsmanna Hreint lært grundvallaratriði í íslensku hjá okkur. Þetta var í annað sinn á þessu ári sem Íslenskuskólinn útskrifar nemendur.

Gott að læra málið
Við hjá Hreint hvetjum þá starfsmenn fyrirtækisins sem ekki tala íslensku til að setjast á skólabekk hjá okkur.

Við leggjum áherslu á að byggja upp orðaforða sem nýtist fólki í daglegu lífi, en einnig orðaforða tengdum starfinu. Við vinnum með grunnþekkingu á tungumálinu og reynum svo að byggja ofan á þá þekkingu. Námið er starfsmönnum okkar algerlega að kostnaðarlausu.

Samfélagsleg ábyrgð að hjálpa
Hvert námskeið í Íslenskuskóla Hreint eru 30 kennslustundir. Af því er ljóst að ekki er mögulegt að fara mjög djúpt í efnið, enda markmiðið aðeins að gefa fólki grunn til að byggja á ef það hefur áhuga á því að læra meira í íslensku.

Dæmi eru um að starfsmenn hafi haldið áfram námi, til dæmis í íslensku fyrir erlenda stúdenta í Háskóla Íslands. Það þykir okkur vænt um enda hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja sem ráða til sín erlenda starfsmenn að hjálpa þeim að fóta sig í nýju landi.

Ef þú þekkir einhvern sem hefur áhuga á að starfa við ræstingar og gæti hugsað sér að læra íslensku hjá okkur samhliða starfi, endilega bentu viðkomandi á að sækja um hjá okkur.