Höfuðstöðvar Hreint Auðbrekku 8
Fréttir

Ræstingastarfið er mikilvægt

Því miður er það nokkuð útbreidd skoðun í samfélaginu að ræstingar sé ekki merkilegt starf. Að þangað veljist fólk sem eigi ekki kost á öðru eða hafi ekki dug í sér að komast í „betri“ störf. Sumum dettur það varla í hug að einhver geri ræstingar að sínu aðalstarfi yfir starfsævina. Við hjá Hreint höfum aðra sögu að segja en hjá fyrirtækinu starfar myndarlegur hópur fagfólks í ræstingum.

Hreint ehf.

Hreint ehf.

2. desember 2019

Því miður er það nokkuð útbreidd skoðun í samfélaginu að ræstingar sé ekki merkilegt starf. Að þangað veljist fólk sem eigi ekki kost á öðru eða hafi ekki dug í sér að komast í „betri“ störf. Sumum dettur það varla í hug að einhver geri ræstingar að sínu aðalstarfi yfir starfsævina. Við hjá Hreint höfum aðra sögu að segja en hjá fyrirtækinu starfar myndarlegur hópur fagfólks í ræstingum.

Hluti starfsfólks Hreint hefur starfað hjá félaginu um langa hríð og sumir allt frá stofnun. Af áhuga og mikilli eljusemi hefur það í gegnum árin markvisst þjálfað sig í þjónustu og samskiptum við viðskiptavini og numið verklega kennslu í ræstingum. Til marks um háan starfsaldur starfsfólks hefur Hreint veitt tæplega 70 starfsmönnum starfsaldursviðurkenningu frá árinu 2013 fyrir 5, 10, 15, 20, 25 eða 30 ára starf.

Nýverið birti Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, áhugaverða grein á vef Vísis sem ber fyrirsögnina Skúra, skrúbba og bóna. Í henni fjallar Flosi um sjónarmið og skoðanir sem endurspeglast hjá mörgum þegar talað er um ræstingar og ræstingafólk.

Gefum Flosa orðið:

Ég átti þess kost að koma í viðtal um stöðuna í kjaradeilu Starfsgreinasambandsins (SGS) við sveitarfélögin í útvarpsþáttinn Harmageddon fyrr í þessari viku. Það er alltaf gott að fá tækifæri til að koma sjónarmiðum SGS á framfæri og hverju sambandið er að berjast fyrir. Annar af þáttastjórnendunum ræddi starfsfólk í ræstingum sérstaklega, og þó ætlunin sé alls ekki að hjóla sérstaklega í hann, þá endurspegluðust hjá honum sjónarmið og skoðanir sem margir hafa séð ástæðu til að hafa samband við mig út af og hafa ýtt af stað hjá mér heilmiklum vangaveltum, með lagið sem Olga Guðrún söng og sem vitnað er í hér í fyrirsögn á heilanum.

Sú skoðun að ræstingar sé ekki merkilegt starf, þ.e. þetta sé starf sem fólk vinni bara tímabundið, t.d. með námi eða sem aukastarf, er býsna útbreidd. Að það sé enginn sem geri ræstingar að sínu aðalstarfi yfir starfsævina og örugglega engan sem langar til þess. Að þeir sem sinni slíkum störfum um lengri tíma hafi misst af einhverri lest, ekki sýnt dugnað og manndóm til að komast í ,,betri“ störf og svo framvegis.

Það endurspeglar líka verðmætamatið í samfélaginu að störf sem þarf ákveðna skilgreinda formlega menntun til að sinna séu ,,merkilegri“ en önnur störf og séu þess eðlis að við ættum öll að stefna að því að komast í hóp þeirra sem þeim sinna. En með því að gangast undir það mat er samfélagið um leið að segja að margvísleg önnur störf séu ómerkileg og eiginlega fyrir neðan virðingu ,,alvöru“ fólks að vinna.

Það er alveg horft frá því hversu mikilvæg þessi störf eru fyrir allt gangverk samfélagsins. Það opna ekki mörg fyrirtæki eða stofnanir á morgnana ef ræstingarstarfsfólkið er ekki búin að skúra skítinn frá deginum áður. Þessum störfum þarf að sinna af vandvirkni og kostgæfni og stórum skammti af jafnaðargeði miðað við umgengni sumstaðar.

Fólk í þessum störfum, sem eru að meirihluta konur, leggur metnað sinn í að sinna sínum störfum vel og gera öðrum kleift að ganga til sinna starfa á nýskúruðum og tandurhreinum vinnustöðum. Fyrir marga er þetta starf sem hentar þeim vel miðað við þeirra aðstæður, sum telja of seint að skipta um vettvang eða langar einfaldlega ekki til þess. Ástæðurnar eru margvíslegar og trúlega eins margar og fólkið. En fyrir alla muni, tölum ekki um þetta frábæra fólk og þeirra störf eins og að allir sem þeim sinna geri það af einhverri illri nauðsyn eða sem tímabundið neyðarúrræði. Við eigum að tala um öll störf í samfélaginu af virðingu en ef farið væri að raða störfum í samfélaginu eftir mikilvægi þá held ég að það sé alveg klárt að það að skúra skít væri langt frá því að vera neðst á þeim mikilvægislista.

Við hjá Hreint tökum heilshugar undir orð Flosa og viljum stuðla að því að breyta neikvæðu viðhorfi samfélagsins til ræstinga. Við minnum einnig á að það getur haft umtalsverð áhrif á rekstur fyrirtækja að rétt sé staðið að ræstingum. Öllum líður betur í hreinu umhverfi, en auk þess getur það haft bein áhrif á heilsu starfsmanna að vinna á vel ræstum vinnustað.