Hvernig á klósettrúllan að snúa
Fréttir

Hvernig á klósettrúllan að snúa?

Við hjá Hreint erum bæði þakklát og stolt af því að ánægja viðskiptavina með þjónustu okkar sé mikil. Við leggjum ávallt metnað í vönduð vinnubrögð og góða framkomu til að skapa heilbrigðara samfélag. Eitt verka okkar gefur þó oft tilefni til vangavelta og speglar á margan hátt umræðuna í þjóðfélaginu þegar kemur að þrifum og umhirðu á salernum. Hvort á klósettrúllan að snúa fram eða aftur á klósettrúlluhaldaranum?

Rúnar Svavarsson

Rúnar Svavarsson

23. nóvember 2022

Nú spyr hugsanlega einhver hvað er fram og aftur á rúllu. Jú, við metum það svo að rúlla snúi fram þegar fremsta blaðið snýr frá veggnum en aftur þegar fremsta blaðið snýr að veggnum. Nú þegar við erum öll á sömu blaðsíðu getum við haldið áfram að vinda ofan af umræðunni.

Sumir vefja sig þeim rökum að í fyrsta einkaleyfinu fyrir klósettrúllur sést að rúllan á að snúa fram. Þeir segjast snýta andstæðingum sínum með rökunum. Þeir sem ekki eru sammála segjast ekki þurfi að fletta neinum blöðum um að oft séu hlutir notaðir öðruvísi en upphaflegi tilgangurinn eða einkaleyfið segir til um.

Svo hafa deilurnar um klósettrúllurnar snúist í marga hringi að gerð hafa verið persónuleikapróf byggð á því hvernig fólk velur að láta rúllurnar snúa. Sagt er að þeir sem velji að láta rúlluna snúa fram séu stjórnsamir, ákveðnir og af manngerð A. Þeir sem láta hana snúa aftur eru undirgefnir, gera málamiðlanir og eru af manngerð B.

Eitt er víst að öll viljum við að salerni séu vel þrifin og snyrtileg. Ef fólk upplifir að salernið sé hreint og þrifalegt er það líklegra til að ganga betur um það.

Hvort uppstilling klósettrúllunnar hafi áhrif á það skal ósagt látið.

Hver er þín skoðun? Hvernig á klósettrúllan að snúa? Við hjá Hreint viljum fá botn í málið í eitt skipti fyrir öll!