Afhending styrks
Fréttir

Hreint styrkir Íþróttafélagið Ösp

Árlegt golfmót Hreint fór fram í blíðskaparveðri á Urriðavelli í sumar en sú hefð hefur skapast að aðalverðlaunin er styrkur til góðgerðarmálefnis sem sigurvegarinn velur og nemur fjárhæðin 150.000 krónum.

Rúnar Svavarsson

Rúnar Svavarsson

19. ágúst 2020

Árlegt golfmót Hreint fór fram í blíðskaparveðri á Urriðavelli í sumar en það er haldið fyrir viðskiptavini, birgja og velunnara. Mótið var vel sótt að venju og keppnin hörð og spennandi fram að síðustu holu. Sú hefð hefur skapast að aðalverðlaunin er styrkur til góðgerðarmálefnis sem sigurvegarinn velur og nemur fjárhæðin 150.000 krónum.

Góð stemning var á meðal keppenda enda umgjörð mótsins öll hin glæsilegasta. Hart var tekist á og mörg snilldarhögg slegin því keppendur vissu að til mikils var að vinna. Eftir skemmtilega og spennandi keppni stóð Laufey Sigurðardóttir uppi sem sigurvegari og valdi hún að styrktarféð rynni til keiludeildar Íþróttafélagsins Aspar.

Íþróttafélagið Ösp var stofnað 18. maí árið 1980 af foreldra- og kennarafélagi Öskjuhlíðarskóla, með stuðningi frá Íþróttasambandi fatlaðra. Tilgangur félagsins er að efla hreyfingu og íþróttaiðkun fyrir fólk með fötlun og fólk með þroskahömlun sem og aðra félagsmenn, með æfingum, námskeiðum og keppni.

Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri Hreint, segir að þetta sé sjötta árið í röð sem verðlaun mótsins renna til góðgerðarmála. „Við hjá Hreint erum sérlega ánægð og stolt af því að geta látið gott af okkur leiða með þessum hætti enda tökum við samfélagsábyrgð okkar mjög alvarlega.“

Helga Hákonardóttir, formaður Íþróttafélagsins Aspar, tók á móti Laufeyju og Ara og veitti styrknum frá Hreint viðtöku. Þakkaði hún kærlega fyrir hlýjan hug til félagsins og sagði að styrkurinn kæmi að góðum notum.

Á myndinni eru f.v. Ari Þórðarson, Laufey Sigurðardóttir og Helga Hákonardóttir.