Fréttir

Hreint styrkir Bumbulóní

Árlegt golfmót Hreint var haldið þann 26. júlí síðastliðinn. Mótið, sem haldið er fyrir birgja, viðskiptavini og velunnara Hreint, var vel sótt og keppni var hörð og spennandi. Þriðja árið í röð voru verðlaunin styrkur til góðgerðarmálefnis sem sigurvegarinn velur.

Hreint ehf.

Hreint ehf.

28. ágúst 2017

Árlegt golfmót Hreint var haldið þann 26. júlí síðastliðinn. Mótið, sem haldið er fyrir birgja, viðskiptavini og velunnara Hreint, var vel sótt og keppni var hörð og spennandi. Þriðja árið í röð voru verðlaunin styrkur til góðgerðarmálefnis sem sigurvegarinn velur. Sú breyting var gerð í ár að Hreint hækkaði verðlaunafé úr 50.000 krónum í 100.000 krónur.

Að sögn Rúnars Ágústs Svavarssonar, þróunar- og markaðsstjóra Hreint, var það sérstakt gleðiefni fyrir stjórnendur og starfsfólk félagsins að geta hækkað verðlaunaféð. „Við tökum samfélagslega ábyrgð okkar mjög alvarlega og fögnum því að geta látið gott af okkur leiða með þessum hætti.”

Keppendur vissu að það var til mikils að vinna og  gaman frá því að segja að það voru konur sem lentu í þremur efstu sætunum í golfmótinu. Var þetta í fyrsta skipti sem það gerist í sögu mótsins. Að lokum var það Sigfríður Sigurðardóttir, Lísa, sem bar sigur úr býtum. Lísa, sem vinnur hjá CCP, valdi félagið Bumbuloní og var því góða félagi veittur styrkur frá Hreint að upphæð 100.000 krónur.

Bumbuloní er góðgerðafélag sem selur handteiknuð kort til styrktar fjölskyldum langveikra barna. Teikningarnar eru eftir Björgvin Arnar sem lést langt fyrir aldur fram úr sjaldgæfum sjúkdómi árið 2013 þá sex ára gamall.  Félagið heldur minningu hans á lofti með því að styrkja fjölskyldur sem standa í ströngu til að létta undir fyrir jólahátíðina. Styrkir Bumbuloní eru veittir til a.m.k. þriggja fjölskyldna langveikra barna í desember ár hvert.

Á myndinni má sjá þau Rúnar Ágúst Svavarsson hjá Hreint, Lísu frá CCP og Ásdísi Örnu Gottskálksdóttur frá Bumbuloni þegar styrkurinn var afhentur.