Fréttir

Hreint heiðrar starfsmenn á árshátíð

Hápunktur félagslífs hvers fyrirtækis er árshátíð. Samstarfsfólk klæðist sínu fínasta pússi og gerir sér glaðan dag hvert með öðru. Þessu er ekki öðruvísi farið hjá Hreint og í mars hélt Hreint glæsilega árshátíð á Grand Hótel. Í ár var sérstök áhersla á að heiðra starfsmenn og var það gert á ákaflega skemmtilegan hátt.

Hreint ehf.

Hreint ehf.

27. apríl 2018

Hápunktur félagslífs hvers fyrirtækis er árshátíð. Samstarfsfólk klæðist sínu fínasta pússi og gerir sér glaðan dag hvert með öðru. Þessu er ekki öðruvísi farið hjá Hreint og í mars hélt Hreint glæsilega árshátíð á Grand Hótel. Í ár var sérstök áhersla á að heiðra starfsmenn og var það gert á ákaflega skemmtilegan hátt.

Mánaðarlega heiðrum við starfsmann mánaðarins. Þeir starfsmenn sem flestar tilkynningar fengu voru heimsóttir á vinnustað sinn og fengu þar afhenta rós. Að sjálfsögðu var þetta tilefni til myndatöku en myndirnar voru svo nýttar til að gera ákaflega skemmtilegt myndband sem sýnt var á árshátíðinni. Að myndbandinu loknu voru svo þeir þrír sem fengið höfðu flestar tilnefningar heiðraðir sérstaklega. Verðlaunin voru ekki af verri endanum, starfsmaðurinn í fyrsta sæti hlaut kampavínsflösku og 50 þúsund króna verðlaun.

Myndbandssýning var þó sannarlega ekki eina skemmtiatriðið, leikarinn Atli Þór Albertsson veislustýrði af alkunnri snilld og þau Jóhanna Guðrún og Jógvan léku heimsfræga slagara ásamt hljómsveit. Það var svo stuðboltinn DJ Nalli hélt uppi fjörinu fram á rauða nótt.

En ef orkan á að vera næg til að tjútta þarf auðvitað að nærast vel og matseðillinn var einkar glæsilegur og gómsætur. Að lokinni humarsúpu í forrétt gæddu gestir sér á nautalund og fengu ljúffengan súkkulaðidraum í eftirrétt.

Það er fátt skemmtilegra en að skemmta sér með góðum vinnufélögum og það er enginn hörgull á slíkum hjá Hreint. Skoðaðu myndir frá árshátíðinni hér og ef þú hefur áhuga á að slást í hópinn getur þú kynnt þér vinnustaðinn frekar hér .