fbpx
Vatnstjón í HÍ
Fréttir

Brugðust hratt við leka í HÍ

Starfsfólk Hreint, ásamt fleira góðu fólki, hefur staðið í ströngu við að þrífa húsnæði Háskóla Íslands síðustu daga. Mikið vatn lak inn í byggingar skólans í síðustu viku þegar kaldavatnsstofnæð gaf sig við Suðurgötu.  MYND/Kristinn Ingvarsson af Hi.is

Rúnar Svavarsson

Rúnar Svavarsson

29. janúar 2021

Áætlað er að um 2.250 tonn af vatni hafi runnið út sem er svipað mikið magn og er í innilaug Laugardalslaugar. Starfsfólk Hreint var snarlega fært úr hefðbundnum ræstingum í að þrífa kjallara Gimli og Háskólatorg þar sem lekinn var mestur.

„Við brugðumst auðvitað hratt við og höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða við björgun verðmæta hjá góðum viðskiptavini okkar sem Háskóla Íslands er. Við náðum að nýta bæði dag- og kvöldafleysingar og bættum töluvert í varðandi áhaldakost svo engar hendur væru tómar,“ segir Guðbjörg Erlendsdóttir, gæða-, starfsmanna- og þjónustustjóri Hreint og bætir við að aukavél hafi verið send á staðin þar sem ekki var hægt að komast á milli hæða með lyftu vegna rafmagnsleysis.

„Allt gekk þetta fljótt og vel fyrir sig og á starfsfólk okkar hrós skilið fyrir hröð handtök og vel unnin störf,“ segir Guðbjörg.