Fréttir

Átta útskrifast úr Íslenskuskóla Hreint

Hreint ehf.

Hreint ehf.

13. ágúst 2015

Í sumar luku átta nemendur námi í Íslenskuskóla Hreint og bætast í stóran hóp okkar góða starfsfólks sem hefur lokið þessu námi. Hluta af hópnum má sjá hér til hliðar. Markmiðið með náminu er að auka sjálfsöryggi og ánægju starfsfólksins og kenna því undirstöðuatriði íslenskunnar, sem nýtist því bæði í starfi og leik.

Það er erfitt að byrja nýtt líf í nýju landi án þess að kunna undirstöðuatriðin í tungumálinu. Hjá Hreint starfa margir erlendir ríkisborgarar og nýir Íslendingar og við leggjum mikla áherslu á að starfsmenn komi í nám hjá okkur. Íslenskuskólinn hefur verið starfræktur frá árinu 2008 og hafa tugir hópa á borð við þann sem nú útskrifaðist lært grundvallaratriðin í íslensku hjá okkur.

Við leggjum áherslu á að byggja upp orðaforða sem nýtist fólki í daglegu lífi, en einnig orðaforða tengdum starfinu. Við vinnum með grunnþekkingu á tungumálinu og reynum svo að byggja ofan á þá þekkingu. Námið er nemendum okkar algerlega að kostnaðarlausu.

Nemendurnir okkar hafa ólíkan bakgrunn og mis mikla þekkingu á íslensku, ensku og öðrum tungumálum en eigin móðurmáli, sem gerir verkefnið erfitt en um leið gefandi. Nemendur sem nú luku námi nú í sumar eru frá Póllandi, Nígeríu og Lettlandi og stóðu sig allir með stakri prýði í náminu og fengu í lok námskeiðsins viðurkenningarskjöl fyrir góðan árangur.

Samfélagsleg ábyrgð að hjálpa

Hvert námskeið eru 30 kennslustundir og því augljóslega ekki hægt að fara mjög djúpt í efnið, enda markmiðið aðeins að gefa fólki grunn til að byggja á ef það hefur áhuga á því að læra málið. Dæmi eru um að starfsmenn hafi haldið áfram námi, til dæmis í íslensku fyrir erlenda stúdenta í Háskóla Íslands. Það þykir okkur óneitanlega vænt um, enda hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja sem ráða til sín erlenda starfsmenn að hjálpa þeim að fóta sig í nýju landi.

Íslenskuskóli Hreint hefur verið starfræktur frá árinu 2008 og við erum hvergi nærri hætt. Við hlökkum til að fá nýjan hóp nema til okkar með haustinu og vonum að þeir sem lokið hafa námi hjá okkur haldi áfram að læra íslensku.

Ef þú þekkir einhvern sem hefur áhuga á að starfa við ræstingar og gæti hugsað sér að læra íslensku hjá okkur samhliða starfi, endilega bentu viðkomandi á að sækja um hjá okkur.