Fréttir

Sólrún ráðin sviðsstjóri sölusviðs Hreint

Sólrún Björk Guðmundsdóttir hefur verið ráðin sviðsstjóri sölusviðs Hreint og verður hlutverk hennar að efla og samræma sölustarf og auka ráðgjöf til viðskiptavina

Rúnar Svavarsson

Rúnar Svavarsson

27. október 2023

Sólrún hefur víðtæka reynslu og þekkingu af sölu- og markaðsmálum og starfaði síðast sem sölustjóri hjá ÓJK-ÍSAM. Áður gegndi hún stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Kaffitárs. Sólrún er með meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla íslands og BS gráðu í viðskiptafræði frá sama skóla.

„Ég er virkilega ánægð og spennt með að vera komin til Hreint og fá að leggja félaginu lið með því frábæra fólki sem hér starfar. Ég sé mikil tækifæri í því sem Hreint hefur upp á að bjóða fyrir fyrirtæki og stofnanir, allt frábærar lausnir sem stuðla að bættri heilsu og vellíðan starfsfólks og viðskiptavina,“ segir Sólrún.

„Það er mikill fengur fyrir Hreint að fá Sólrúnu til að leiða sölusvið fyrirtækisins. Félagið hefur verið í jöfnum og stöðugum vexti undanfarin ár og ætlar sé stærri hlut á ræstingamarkaði í framtíðinni. Reynsla og þekking Sólrúnar mun nýtast okkur vel á þeirri vegferð,“ segir Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri Hreint.

Hreint ein elsta og stærsta ræstingaþjónusta landsins og fagnar 40 ára afmæli á þessu ári. Starfsemi félagsins hefur alla tíð snúist um að veita fyrirtækjum og stofnunum faglega alhliða ræstingaþjónustu.