Interclean 2022
Fréttir

Interclean Amsterdam gefur dýrmæta sýn á þróun í ræstingaheiminum

Hreint tók nýverið þátt í Interclean Amsterdam sem er ein stærsta ráðstefna og sölusýning í ræstingaheiminum, haldin á tveggja ára fresti. Þangað mættu rúmlega 650 sýnendur frá 40 löndum og sýningagestir voru tæplega 26 þúsund. Kenndi þar ýmissa grasa í vörum og þjónustu og tæknilausnum í þrifum, ræstingum og hreinlætisbúnaði.

Rúnar Svavarsson

Rúnar Svavarsson

27. maí 2022

Hreint er leiðandi fyrirtæki í ræstingaþjónustu hér á landi og kappkostar ávallt að viðhalda hæsta gæðaflokki og vera í fararbroddi þegar kemur að þróun og nýjungum á sviði ræstinga. Einn liður í því er að taka þátt í ráðstefnum og sölusýningum erlendis til þess að kynnast því nýjasta í heimi ræstinga og þrifa.

Hreint tók nýverið þátt í Interclean Amsterdam sem er ein stærsta ráðstefna og sölusýning í ræstingaheiminum, haldin á tveggja ára fresti. Þangað mættu rúmlega 650 sýnendur frá 40 löndum og sýningagestir voru tæplega 26 þúsund. Kenndi þar ýmissa grasa í vörum og þjónustu og tæknilausnum í þrifum, ræstingum og hreinlætisbúnaði.

Þrifaþyrlur fyrir stórhýsi

Interclean Amsterdam var fyrst haldin árið 1967 en féll niður 2020 vegna kórónuveirufaraldursins. Í ár var sérstök áhersla lögð á hreinlæti og heilbrigðisþjónustu eftir COVID en ýmsar áhugaverðar tækninýjungar vöktu þó mesta athygli gesta. Snúa þær flestar að notkun þjarka í ræstingum og sem dæmi voru í ár sýndir 15 þjarkar af ýmsum stærðum og gerðum en árið 2016 voru einungis þrír til sýnis. Til gamans má nefna að til sýnis voru fljúgandi drónar sem þrífa glugga á stórhýsum og gufuhreinsunartæki fyrir brugghús. Greinilegt er að mikil þróun á sér stað í ýmsum snjalltæknilausnum á sviði ræstinga og þrifa og verður fróðlegt að fylgjast með henni næstu árin.

Tork fékk nýsköpunarverðlaun fyrir nýja afþurrkunarklúta

Í mörg ára hafa nýsköpunarverðlaun verið veitt á ráðstefnunni fyrir nýjar vörur eða þjónustu og fyrir lausnir í þrifum, ræstingu og hreinlætisbúnaði. Keppt er í fjórum flokkum sem snúa að sjálfbærni og umhverfinu, snjalltækni og stafræni væðingu, vinnuafli og vinnuvistfræði og hreinlæti og heilsu. Alþjóðleg dómnefnd velur tólf tilnefningar og verðlaunar svo fyrir hvern flokk, auk þess sem sýningagestir fá að velja sinn sigurvegara. Að mati dómnefndar var sigurvegarinn í ár fyrirtækið Tork sem framleiðir ýmsar hreinlætisvörur. Verðlaunin voru veitt fyrir nýja afþurrkunarklúta en við gerð þeirra er hugað að öllum þáttum í umhverfisvænni framleiðslu og endurvinnslu. Hægt er að kynna sér sigurvegara ráðstefnunnar í öllum flokkum hér.

Sérfræðingar Hreint eru stöðugt að fylgjast með nýsköpun og nýjungum í ræstingaheiminum og munu halda því áfram, viðskiptavinum til gagns. Hafðu samband við Hreint og fáðu upplýsingar um hvernig sérfræðiþekking okkar getur gagnast þér.