Fréttir

Húsráð: Gluggaþvottur

Hreint ehf.

Hreint ehf.

24. ágúst 2016

Við hjá Hreint erum snjöll í gluggaþvotti og viljum endilega miðla af þekkingu okkar til heimilanna í landinu. Á ferð okkar um borg og bæ sjáum við oft skýjaða glugga og illa þvegna og við þykjumst vita að oftast er vandamálið að of mikið er notað af sterkum hreinsiefnum.

Þrif og ræsting snúast nefnilega ekki alltaf um að nota dýrasta og sterkasta efnið.  Í stað þess að kaupa dýran og sterkan rúðuúða í verslun má búa til sinn eigin. Ekki þarf önnur efni en edik og vatn. Blandaðu saman hálfum til einum desílítra af borðediki við einn lítra af vatni og settu í blómaúðabrúsa. Slíka brúsa má víða fá á

góðu verði. Úðið létt yfir glerið og þerrið vel með góðum örtrefjaklúti. Ef gluggar eru mjög skítugir að utan er gott að blanda nokkrum dropum af uppþvottalegi og um það bil einum desílítra af borðediki í fötu af volgu vatni. Best er að þrífa gluggana með svampi og nota svo gluggasköfu til að skafa vatnið af rúðunni.

Gætið þess að beita sköfunni alltaf í sömu átt því annars getur rúðan strikast. Best er að þvo glugga ekki í sól, betra er að bíða eftir skýjuðu veðri eða bíða fram á kvöld. Ef gluggarnir eru þvegnir í sól þornar glerið alltof hratt og glugginn verður bæði kámugur og taumar geta myndast.

Flóknara er þetta ekki og um að gera að nýta næsta skýjaða dag til að þrífa gluggana að utan. Hreinir gluggar veita náttúrulegri birtu inn í vistarverurnar og útlit heimilisins verður strax mun snyrtilegra og þrifalegra.

Næsta húsráð: Heimagerð hreinsiefni