Fréttir

Húsráð: Gæludýr og hreinlæti

Hreint ehf.

Hreint ehf.

24. október 2017

Þeir sem eiga gæludýr vita að þeim getur fylgt óþrifnaður og jafnvel ólykt. Við hjá Hrein eigum ráð fyrir gæludýraeigendur um hvernig gott er að taka til og þrífa eftir blessuð dýrin. Enda er þrif og ræstingar okkar ær og kýr. Við veitum hér 5 ráð til hreinlætis.

 1) Skítugt búr

Það er best að nota raka tusku til þess að þrífa spörðin eftir hamstra og kanínur eða önnur álíka smádýr. Rakinn forðar því að úrgangurinn þorni og að maður andi honum að sér. Mikilvægt er þó að þerra búrið vel á eftir svo ekki myndist mygla eða sveppir. Einu sinni í viku skyldi svo þrífa búrið vel: blandaðu örfáum dropum af uppþvottalegi í fötu af heitu vatni og skrúbbaðu allt búrið vel með uppþvottabursta. Skolaðu ákaflega vel á eftir með sturtuhaus eða slöngu svo þú náir líka vel inn í hornin. Þurrkaðu svo vel með pappírsþurrku eða láttu þorna vel.

2) Dýrabælið

Ef baða má hundinn mánaðarlega mun það hjálpa til við að minnka hundalyktina. Nýttu tækifærið og þrífðu bælið á sama tíma. Best er að eiga bæli með hlíf sem má fara í þvottavél. Ryksugið bælið fyrst vel til að ná sem mestu hári og setjið svo bæði púðann og hlífina, í tvennu lagi, í þvottavél. Notið þvottaefni og gott er einnig að nota efni sem fjarlægir lykt.

3) Kattakassinn

Mörgum óar við umsjá kattakassans en verða að láta sig hafa það. Úrgangurinn getur borið með sér skaðlegar veirur, örverur og sníkjudýr – að ekki sé minnst á óþefinn. Daglega verður að skófla burt öllum úrgangi og kleprum sem myndast í sandinum. Á nokkurra vikna fresti, eða fyrr ef þörf er á, þarf að þrífa kassann vel. Hendið öllum kattasandinum í poka og þvoið bakkann með heitu sápuvatni og notið uppþvottabursta. Þvoið svo alla sápuna vel burt og þerrið vandlega áður en kattasandi er aftur bætt í samkvæmt ráðleggingum framleiðanda.

4) Skítug leikföng og fóðurdallar

Ef leikföng loðnu vina okkar eru þvegin mánaðarlega minnkar það óhreinindin og örverusöfnun á leikföngunum. Flest tauleikföng má þvo við lágan hita í þvottavél en ráðlegt er að setja þau fyrst inn í koddaver. Nagleikföng (til dæmis þau sem nammi er sett í) mega vanalega fara í uppþvottavélina. Sama má segja um fóðurdallana en einnig má þvo þá í höndunum með sápuvatni.

5) Dýrahár á húsgögnum og í mottum

Besta tækið til að fjarlægja dýrahár úr mottum er gluggaskafa. Þegar þú dregur hana eftir mottunni mun stöðurafmagnið sjá til þess að hárið safnast í hnoðra sem auðvelt er að ná úr. Þegar þrífa á bólstruð húsgögn er best að klæða sig í uppþvottahanska og hafa hann örlítið rakann. Húsgagnið er svo nuddað og þá gerist það sama og með mottuna: hárið safnast í hnoðra sem auðvelt er að safna saman. Best er auðvitað að minnka hárlosið, með því að gefa dýrinu gott fóður og bursta feld dýranna eftir ráðleggingum dýralækna og dýrasnyrta.

Næsta húsráð: Gluggaþvottur