Fréttir

Húsráð: Einfalt ráð til að þrífa sturtuglerið

Hreint ehf.

Hreint ehf.

24. ágúst 2018

Sturtugler inni á baðherbergi geta verið augnayndi. Þau eru gagnleg enda koma þau í veg fyrir að vatn skvettist út á gólf þegar heimilisfólkið þrífur sig í sturtunni. En gallinn við sturtugler er að þau verða fljótt óhrein þegar vatn þornar innan á glerinu.

Hafðu gluggasköfu inni á baði
Sumir leysa úr þessum hvimleiða vanda með því að hafa gluggasköfu ýmist inni á baðherberginu eða hreinlega í sturtunni. Sturtuglerinu má halda hreinu með því að renna létt yfir það eftir hverja sturtu og skafa vatnið af. Við það ætti glerið að haldast sæmilega hreint.

Ef þú gleymir að skafa sturtuglerið eftir hverja sturtuferð þá er mikilvægt að hreinsa það með réttu efnunum.

Lausnin felst í sítrónum
Hér er gott ráð og einfalt: Náðu í eina sítrónu. Skerðu hana í báta og nuddaðu síðan glerið hátt og lágt með sítrónubátunum. Þegar þú telur þig hafa hreinsað mestu óhreinindin af sturtuglerinu er þjóðráð að skrúfa frá kalda vatninu og nota sturtuhausinn til að skola af sturtuglerinu. Til að koma í veg fyrir að taumar komi aftur á glerið er gott að renna yfir það með eldhúspappír.

Við hjá Hreint þekkjum vandamálið sem felst í erfiðum blettum, óhreinindum sem vilja ekki hverfa sama hvaða efni eru notuð og matarleifar sem virðast aldrei ætla að losna. En við þekkjum líka allar bestu leiðirnar sem vinna á þessum vandamálum. Gluggaþvottur er líka sérgrein okkar svo endilega hafðu samband ef þig vantar ráðgjöf !

Næsta húsráð: Byrjaðu að flokka