fbpx
Hreint styrkir sumarbúðirnar í Reykjadal
Fréttir

Hreint styrkir sumarbúðirnar í Reykjadal

Á hverju sumri heldur Hreint golfmót fyrir viðskiptavini, birgja og velunnara. Mótið í sumar, sem fram fór á Urriðavelli, var vel sótt að venju og keppnin hörð og spennandi fram að síðustu holu.

Hreint ehf.

Hreint ehf.

15. ágúst 2019

Á hverju sumri heldur Hreint golfmót fyrir viðskiptavini, birgja og velunnara. Mótið í sumar, sem fram fór á Urriðavelli, var vel sótt að venju og keppnin hörð og spennandi fram að síðustu holu. Skapast hefur sú hefð að aðalverðlaun mótsins er styrkur til góðgerðarmálefnis sem sigurvegarinn velur og nemur fjárhæðin 150.000 krónum.

Keppendur mættu vel stemmdir til mótsins enda vissu þeir að það var til mikils að vinna. Hart var barist og hvert snilldarhöggið eftir annað leit dagsins. Eftir skemmtilega keppni stóð Gunnar Jóakimsson uppi sem sigurvegari og valdi hann að styrktarféð rynni til Reykjadals sem eru sumarbúðir á vegum Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

Í sumardvöl í Reykjadal koma fötluð börn og ungmenni á aldrinum 8-21 árs alls staðar að af landinu. Reykjadalur er opinn öllum börnum sem ekki hafa kost á að sækja aðrar sumarbúðir.

Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri Hreint, segir að þetta sé fimmta árið í röð sem verðlaun mótsins renna til góðgerðarmála. „Við hjá Hreint fögnum því að geta látið gott af okkur leiða með þessum hætti enda tökum við samfélagslega ábyrgð okkar mjög alvarlega.“

Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðumaður Reykjadals, tók nýverið á móti Gunnari og Ara og veitti styrknum frá Hreint viðtöku. Þakkaði hún kærlega fyrir hlýjan hug til Reykjadals og sagði að styrkurinn kæmi að góðum notum.

Á myndinni eru f.v. Ari Þórðarson, Margrét Vala Marteinsdóttir og Gunnar Jóakimsson.