Fréttir

Hreint fær viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA

Við erum ótrúlega stolt af því að hafa í fyrsta sinn hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar. Jafnvægisvogin er frábært samfélagslegt verkefni á vegum Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), dómsmálaráðuneytisins og fyrirtækja víða úr viðskiptalífinu. Markmið þess er að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar og stuðla að fjölbreyttara vinnuumhverfi.

Rúnar Svavarsson

Rúnar Svavarsson

10. október 2025

Jafnvægisvogin veitir árlega viðurkenningar úr hópi fyrirtækja og opinberra aðila sem undirritað hafa viljayfirlýsingu um að vinna að því að jafna hlutfall karla og kvenna í framkvæmdastjórnum fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi. Markmiðið er að hlutföll verði a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórn og/eða efsta lagi stjórnunar. Stór hluti þátttakenda sem skrifað hafa undir viljayfirlýsinguna hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgar þeim fyrirtækjum og stofnunum milli ára sem náð hafa markmiðinu.

Skýr stefna í jafnréttismálum

Við höfum lengi haft skýra sýn og stefnu í jafnréttismálum sem tryggir sanngirni, jöfn tækifæri og kjör alls starfsfólks. Við höfum verið jafnlaunavottað fyrirtæki frá árinu 2021 og hlotið jafnlaunamerki Jafnréttisstofu sem er staðfesting á því að launakerfi okkar samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Reynsla okkar sýnir fjölbreytt samsetning mannauðs eykur víðsýni, kallar fram ólík sjónarhorn og fjölbreytta nálgun verkefna svo ekki sé talað um almenna gleði og ánægju. Konur eru í meirihluta bæði í framkvæmdaráði Hreint og meðal millistjórnenda.