Við elskum að taka saman góð ráð fyrir alls konar hreingerningar enda eru þrif og ræstingar okkar ær og kýr. Öll ráð okkar má finna á heimasíðu Hreint undir heitinu Fróðleikur. Við höfum reynt að einbeita okkur að því að miðla ráðum þar sem notuð eru umhverfisvæn og ódýr hreinsiefni, sem oft duga betur en hefðbundin og rándýr efni.
En þá að jólahreingerningunni. Mestu máli skiptir að hafa gott skipulag og ekki ana úr einu verki í annað. Þá verður okkur meira úr verki og minni hætta er á að eitthvað gleymist. Við þurfum sem sagt að sýna aga í vinnubrögðum og þá uppskerum við ríkulega. Margt er líkt með vorhreingerningu og jólahreingerningu og því er tilvalið að nýta sér gátlista fyrir vorhreingerningu sem finna má hér.
Ef dagleg þrif eru í lagi er minni þörf á sérstakri stórhreingerningu, eins og vor- og jólahreingerningu. Þess vegna er upplagt að birta gátlista sem við eigum fyrir dagleg þrif. Ef hann er notaður ætti ekki að þurfa að verja nema 8 mínútum í þrif á eldhúsi og tveimur og hálfri mínútu í að þrífa baðherbergið.
Við vitum líka að hreint og fallegt heimili veitir vellíðan og hugarró og jólaskrautið nýtur sín svo miklu miklu betur en það má ekki gleyma að jólin ganga í garð þó að rykhnoðrar séu undir sófanum eða gluggarnir ekki skínandi hreinir.