Við elskum að taka saman góð ráð fyrir alls konar hreingerningar enda eru þrif og ræstingar okkar fag. Á heimasíðunni okkar undir flipanum Fréttir & fræðsla höfum við tekið saman margvísleg ráð og leiðbeiningar fyrir hreingerningar. Sérstök áhersla er lögð á umhverfisvænar og hagkvæmar aðferðir sem oft virka jafn vel eða betur en hefðbundin og dýrari hreinsiefni.
Skipulag er lykillinn að árangri
Gott skipulag skiptir sköpum þegar kemur að jólahreingerningunni. Að vinna markvisst og einbeita sér að einu verkefni í einu tryggir betri árangur og dregur úr líkum á að eitthvað gleymist. Þannig má ljúka verkinu á mun skemmri tíma, með meiri ánægju og minnka jólastressið.
Ef þig vantar leiðbeiningar til að halda utan um verkefnin mælum við með því að þú nýtir þér gátlista okkar fyrir vorhreingerningu. Margt er líkt með vor- og jólahreingerningunni og listinn gerir það að verkum að ekkert fari framhjá þér. Hann sparar líka heilmikinn tíma.
Jafnframt draga regluleg þrif yfir árið úr þörf fyrir stórhreingerningu. Við höfum útbúið gátlista fyrir dagleg þrif, sem einfaldar verkið og sparar tíma. Ef honum er fylgt ætti t.d. að taka innan við 8 mínútur að þrífa eldhúsið og einungis 2-3 mínútur að sinna baðherberginu.
Það er óumdeilt að hreint og vel skipulagt heimili eykur vellíðan og hugarró og jólaskrautið nýtur sín svo miklu betur. Það er samt líka mikilvægt að minna sig á að jólin snúast ekki bara um að heimilið sé hreint. Jólin koma alltaf, þó svo að rykhnoðrar séu undir sófanum eða gluggarnir ekki alveg glansandi. Það er samveran og kærleikurinn sem skiptir höfuðmáli.
Við óskum þér gleðilegra jóla og vonum að ráðin nýtist vel í undirbúningnum.