Fréttir

Gleði og fjör á árshátíð á Nauthóli

Við fylltum glæsilegan sal Nauthóls af glöðu og skemmtanaþyrstu starfsfólki á laugardaginn þegar okkar árlega árshátíð fór fram og einkenndist hún af gleði, hlátri og frábærri stemningu. Herlegheitin hófust með fordrykk klukkan 19 en skemmtidagskrá hófst tæpum klukkutíma síðar.

Rúnar Svavarsson

Rúnar Svavarsson

18. febrúar 2025

Veislustjóri kvöldsins var hinn óviðjafnanlegi skemmtikraftur Hjálmar Örn, sem tókst einstaklega vel að ná saman fjölbreyttum hópi fólks af um 30 þjóðernum og sameina hann í alþjóðlegu tungumáli hlátursins.

Einn af hápunktum kvöldsins var happdrættið okkar, þar sem dregnir voru út um 20 glæsilegir vinningar frá frábærum samstarfsaðilum okkar. Spennan var mikil og gleðin enn meiri þegar þeir heppnu fengu vinninga sína í hendur.

Hinn brosmildi og síkáti Jón Sigurðsson, oft kallaður 500 kallinn, mætti á svæðið og sá um tónlistaratriði sem fékk alla viðstadda til að syngja og dansa – jafnvel í falsettu! Stemningin náði svo nýjum hæðum þegar DJ Matti tók við og hélt uppi stuðinu fram til klukkan 1 eftir miðnætti.

Árshátíðin var einstakt kvöld sem mun lifa lengi í minningunni þeirra sem tóku þátt. Við þökkum öllum kærlega vel fyrir sem lögðu sitt af mörkum til að gera þetta kvöld svona ógleymanlegt!