Fréttir

Hreint styrkir Minningarsjóð Bryndísar Klöru

Í 15 ár hefur Hreint haldið golfmót fyrir viðskiptavini sína, birgja og velunnara. Mótið í sumar fór fram 21. ágúst, á Urriðavelli, hinum glæsilega golfvelli Golfklúbbsins Odds, og var það vel sótt að venju. Sú hefð hefur skapast aðalverðlaun mótsins eru styrkur til góðgerðarmálefnis sem sigurvegarinn velur og nemur fjárhæðin 150.000 krónum.

Rúnar Svavarsson

Rúnar Svavarsson

10. nóvember 2025

Eftir skemmtilega og hörku spennandi keppni í blíðskaparveðri á Urriðavelli stóð Gunnar Egill Sigurðsson uppi sem sigurvegari. Hann ákvað að styrktarféð skyldi renna í Minningarsjóð Bryndísar Klöru, sem stofnaður var til að heiðra og varðveita minningu Bryndísar Klöru Birgisdóttur sem lést í kjölfar hnífaárásar á menningarnótt í Reykjavík í ágúst 2024. Tilgangur og markmið sjóðsins er að styðja við almannaheillaverkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.

Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri Hreint, og Gunnar Egill Sigurðsson, sigurvegari mótsins, afhentu Guðrúnu Ingu Sívertsen, formanni minningarsjóðsins, styrkinn í dag. Ari segir að fyrirtækið vilji láta gott af sér leiða og að styrkveitingin sé hluti af samfélagsábyrgð þess. Það sé alltaf jafn ánægjulegt að geta stutt góð málefni. Guðrún Inga þakkað Ara og Gunnar Agli kærlega fyrir styrkinn og hlýhuginn sem þeir sýna Minningarsjóði Klöru.

Þetta er í tíunda skipti sem Hreint veitir styrk til góðgerðarfélaga í tengslum við árlegt golfmót sitt. Meðal félaga sem hlotið hafa styrk á undanförnum árum eru Ljósið, Barnaspítali Hringsins, Einhverfusamtökin, og Styrktarfélaga krabbameinssjúkra barna.

Á myndinni eru f.v. Gunnar Egill Sigurðsson, Guðrún Inga Sívertsen og Ari Þórðarson.