Við hjá Hreint erum afar stolt af Svansvottuninni sem við fengum fyrir fimm árum. Vottunin ber það með sér að fyrirtækið fylgir í hvívetna þeim kröfum sem gerðar eru til ræstingafyrirtækja sem bera Svaninn, sem er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna.
Þau fyrirtæki sem hlotið hafa Svansvottunina þurfa að fylgja ströngum kröfum sem ætlað er að vernda umhverfið og heilsu fólks. Við hjá Hreint erum þegar þetta er skrifað eitt af aðeins 29 íslenskum fyrirtækjum sem fengið hafa þessa eftirsóttu vottun.
Notum aðeins efni með Svansvottun
Ein af þeim kröfum sem við hjá Hreint þurfum að uppfylla til að halda Svansvottuninni er að nota eingöngu efni sem eru með vottun Svansins. Það er gagnlegt í þessu samhengi að átta sig á því til hvers er horft þegar ákveðið er hvort vörur eins og hreinsiefni fái Svansvottun. Hver vara er metin sérstaklega út frá því hversu umfangsmikil umhverfisáhrif geta hlotist af notkun hennar, framleiðslu og förgun, að umbúðunum meðtöldum.
Þetta þýðir að við hjá Hreint vinnum ætíð með viðurkennd efni sem hafa sem minnst áhrif á umhverfið. Engu skiptir hvort þetta eru almennar ræstingar eða einstök hreingerningarverkefni.
Okkur til mikillar gleði er þetta sífellt að verða auðveldara þar sem fleiri og fleiri vörur hljóta þessa eftirsóttu umhverfisvottun.
Drögum úr notkun á efnum
Við hjá Hreint notum líka eins lítið af efnum og hægt er án þess að draga úr virkni þeirra. Hver kannast ekki við að setja vænan slurk af gólfsápu í skúringarfötuna? Við hjá Hreint gerum það ekki heldur fylgjum nákvæmlega leiðbeiningum um hæfilegt magn og förum ekki yfir þau mörk.
Svansvottun hefur fleira í för með sér fyrir ræstingarfyrirtæki eins og Hreint. Við þurfum að tryggja þjálfun starfsmanna svo þeir átti sig á mikilvægi þess að unnið sé á sem umhverfisvænstan hátt. Við þurfum einnig að gæta að umhverfisáhrifum af akstri á milli staða.
Það var mikið heillaspor fyrir Hreint að breyta starfsaðferðum og innkaupum til að uppfylla öll skilyrði Svansins. Með því sýnum við samfélagslega ábyrgð og gerum okkar til að vernda náttúru landsins, heilsu starfsmanna okkar og þeirra sem við vinnum fyrir.
Allir geta valið rétt
Við hvetjum alla til að velta umhverfisáhrifum af hreinsiefnum og öðrum vörum fyrir sér. Lærðu að þekkja Svansmerkið á umbúðum. Mundu eftir því að líta á brúsann eða pakkann áður en þú kaupir hreinsivörur eða þvottaefni fyrir heimilið. Ef valið stendur á milli vöru sem er með Svansmerkinu og annarrar sem ekki ber merkið er auðvelt að velja á milli varanna. Settu Svaninn í körfuna og ómerktu vöruna aftur í hilluna. Við getum öll haft áhrif.