Þegar litið er yfir hillur stórmarkaða í leit að réttu hreinsiefni fallast mörgum hendur yfir úrvalinu. Flestir kannast líka við að kaupa nýjan brúsa af hreinsiefni fyrir ákveðið verkefni, sem að því loknu safnar ryki í hillu í þvottahúsinu með öðrum hreinsiefnum sem einnig reyndust full sérhæfð.
Oft er ekki þörf á því að kaupa sérhæft og oft dýrt efni til að ná því markmiði sem að er stefnt, að hafa hreint í kringum sig. Við hjá Hreint þekkjum ræstingar og hreingerningar og vitum að stundum er einfaldasta lausnin sú besta. Við mælum með því að þú lærir hvenær hægt er að nota borðedik í stað dýru efnanna.
Hrein íþróttaföt
Nú þegar jól og áramót eru liðin ætla eflaust margir að fara að hreyfa sig af fullum krafti. Margir kannast við að svitalykt á það til að festast í íþróttafötum, sérstaklega þeim sem eru úr gerviefnum. Til að eyða þessari lykt er gott að leggja fötin í bleyti yfir nótt. Tilvalið er að nota skúringafötu eða lítinn bala. Setjið nóg af heitu vatni og blandið góðum slatta af borðediki saman við. Gott er að miða við að minnsta kosti 2-3 desilítra af ediki í hverja fimm lítra af vatni. Leggið íþróttafötin í bleyti yfir nótt, vindið svo úr þeim mesta vatnið morguninn eftir og skellið í þvottavélina.
Ef þvottur gleymist í þvottavél í marga klukkutíma kemur stundum fúkkalykt af fötunum. Þá er gott að hella smá ediki (hálfum til einum desilítra eftir magni af þvotti) í sápuhólfið á þvottavélinni og setja hana af stað aftur. Fötin verða þá hrein og fín þegar vélin er búin.
Borðedik er frábært til að losna við slæma lykt. Margir eru farnir að sjóða blöndu af borðediki og vatni í potti á sama tíma og þeir sjóða skötuna á Þorláksmessu. Sama ráð getur hjálpað til við að losna við reykingalykt úr húsinu. Það er fínt að nota tækifærið ef þú átt pott með blettum sem erfitt hefur reynst að hreinsa. Notaðu til helminga vatn og borðedik. Lyktin hverfur og það losnar um blettina í pottinum á sama tíma.
Þegar lyktin úr örbylgjuofninum eða ruslaskápnum er slæm er gott ráð að setja vatn í skál og hella smá borðediki út í skálina. Edikið eyðir yfirleitt vondu lyktinni á nokkrum klukkustundum. Það getur líka verið gott að væta brauðsneið með ediki og setja neðst í ruslafötuna yfir nótt til að ná úr henni vondu lyktinni.
Settu edik og vatn í úðabrúsann
Edik blandað saman við vatn er einnig frábært til að þrífa ísskápinn og losna við lykt af afgöngunum frá því um jólin. Gott er að nota tóman úðabrúsa. Settu blöndu sem er um þriðjungur borðedik og tveir þriðju vatn í brúsann. Sumir blanda smá uppþvottalegi í brúsann. Þetta er hægt að nota til að þrífa ísskápinn, rúður, spegla, flísar og sturtuklefa.
Margir kannast við að kalk byggist upp á sturtuklefum og blöndunartækjum. Það er oft óþarfi að kaupa ný blöndunartæki þó þau gömlu séu farin að láta verulega á sjá. Oft er nóg að losa blöndunartækin frá (fáðu pípara í verkið ef þú treystir þér ekki í það) og leggja þau í bleyti yfir nótt í sterkri blöndu af ediki og vatni.
Náttúrulegur stíflueyðir
Þegar niðurfallið er stíflað er gott að nota edik og matarsóda til að vinna á stíflunni. Hellið um það bil desilítra af matarsóda beint ofan í stíflaða niðurfallið og í beinu framhaldi tveimur desilítrum af borðediki. Þegar edikið blandast matarsódanum freyðir það. Þegar blandan er hætt að freyða er niðurfallið skolað með heitu vatni.
Næsta húsráð: Þrífa þvottavél með edik