Það er ekki langt síðan framkvæmd voru stórþrif á öllum heimilum og vinnustöðum tvisvar á ári, fyrir jól og að vori. Eftir því sem aðventan verður annasamari hjá fólki minnkar vægi jólahreingerningarinnar og í staðinn er lagt ofurkapp á vorhreingerninguna. Það er enda ekki að furða, þegar sólin skín inn um rúðurnar verða rykið og óhreinindin meira áberandi. Engum líður vel á skítugu heimili eða vinnustað og því brettir fólk upp ermar og hendir sér af stað. En kapp er best með forsjá og mikilvægt að skipuleggja sig ef vel á til að takast. Þrif og ræsting geta nefnilega verið skemmtileg séu þau eru vel skipulögð.
Best er að skipuleggja sig þannig að hver vistarvera er tekin í gegn í einu. Ekki þjóta frá einu herbergi til annars í miðju verki. Hætta er á því að eitthvað gleymist á hverjum stað og þrifin taka miklu lengri tíma en ella. Sýndu aga í vinnubrögðum og þú uppskerð ríkulega.
Í vorhreingerningu felst líka að við förum vandlegar í alla hluti en vanalega og þrífum staði og hluti sem við leiðum ekki endilega hugann að dags daglega. Gott getur verið að styðja sig við gátlista eins og þann sem við birtum hér, en hafðu í huga að hann er síður en svo tæmandi og sumt á ekki endilega við hjá þér.
Hreinsaðu teppi og mottur
Auðvitað þarf reglulega að ryksuga mottur og teppi en einu sinni á ári er gott að nota teppahreinsivél og þrífa rækilega. Hægt er að leigja vélar víða og margir bjóða upp á þessa þjónustu. Hreint býður viðskiptavinum upp á ákaflega vandaða teppahreinsiþjónustu.
Þurrkaðu af hillum og bókum
Taktu allt úr hillunum og þurrkaðu vel úr hillunum. Gott er að nota litlu ryksuguhausana til að komast inn í króka og kima þar sem erfitt getur verið að komast að. Þurrkaðu líka af bókunum, þær safna að sér miklu ryki.
Þrífðu sófapúðana
Farðu með sófapúða og pullur út og berðu úr þeim rykið. Ryksugaðu vandlega alla króka og kima í sófanum.
Þrífðu málma á hurðum og gluggum
Margir gleyma að þrífa hurðarhúna, lása og tengladósir úr málmi og stormjárnin í gluggunum. Sparkhlífar á hurðum eru líka oft úr málmi. Ef þessir hlutir eru lítið eða meðal skítugir virka fljótandi efni vel. Settu efnin í góða tusku og þrífðu þannig. Ekki setja efnin beint á flötinn. Ef óhreinindin nást ekki af er hægt að kaupa ræstikrem sem virka vel á erfiðari óhreinindi.
Þurrkaðu vel af í öllum rýmum
Ekki síst þar sem erfitt getur verið að komast að svo sem ofan á skápum og hurða- og gluggakörmum. Best er að vinna sig ofan frá og niður og ljúka verkinu með því að ryksuga rykið sem fellur á gólfið. Best er að sleppa hreinsiefnum en nota frekar góðan klút eða kúst.
Bónaðu og berðu á húsgögn
Þrífðu húsgögnin vel með sápu og vatni (ef það má samkvæmt leiðbeiningum frá söluaðila). Þá er gott að bera húsgagnabón á þau húsgögn sem slíkt þurfa eða nota olíu á óvarða eik sem er svo vinsæl á heimilum landsmanna. Þetta lengir líf húsgagnanna og þau verða eins og ný á eftir.
Ekki gleyma reykskynjaranum
Þurrkaðu rykið af reykskynjaranum og notaðu tækifærið til að skipta um rafhlöðu.
Þvoðu gluggana
Ekki veitir af eftir ótíðina í vetur! Farðu sparlega með efnin og sprautaðu þeim í tuskuna, ekki beint á glerið.
Bónaðu gólfin
Ef gólfdúkar eru á heimilinu er ráð að þvo þá rækilega og bóna vel. Gólfin fá fallegan gljáa og vistarverurnar taka á sig nýjan svip.
Það er um að gera að hafa gaman af þrifunum. Setja skemmtilega tónlist á fóninn og virkja alla. Þrif eru alls ekki leiðinleg og sérstaklega ekki þegar allir leggja hönd á plóg. Fagmenn Hreint aðstoða viðskiptavini sína við þrifin. Hafðu samband við okkur og sjáðu hvernig við getum tekið til hendinni á þínum vinnustað.
Næsta húsráð:Þrífa örbylgjuofninn