Content

 

Húsráð: Þrif í eldhúsi

Merki -husrads

Öll þrif eiga það sameiginlegt að mikilvægt er að ganga skipulega í verkin. Með góðu skipulagi verður manni miklu meira úr verki á skemmri tíma. Þrif í eldhúsi er nokkuð sem flestir sinna daglega en reglulega verðum við að gera ítarlegri þrif og þá tökum við tækin rækilega í gegn. Það eykur endingu þeirra og við njótum þess betur að vinna í hreinu og snyrtilegu umhverfi.

 Bökunarofn

Hillur verslana eru fullar af allskyns efnum sem ætluð eru til þrifa á ofnum. Umhverfisvænni kostir eru kristalssápa og jafnvel góður uppþvottalögur. Við höfum líka áður bent á hve ótrúlega öflugt er að nota matarsóda og edik saman og ráð að kynna sér það hér. En það er gott að hafa fleiri vopn í vopnabúrinu og þau fáum við nú.

 

Venjulegur ofn:
Kristalssápa: Hafið ofninn kaldan á meðan sápan er borin á. Stillið Svo á 90°C og látið hann hitna í að minnsta kosti hálftíma eða þangað til sápan fer að sjóða. Slökkvið á ofninum og látið hann kólna vel. Ofninn má vera volgur, en farið varlega. Þrífið sápuna vandlega af með bómullarklút og heitu vatni og þurrkið vel. Ef einhver óhreinindi eru enn eftir má ná þeim af með glersköfu. Einnig má bera sápuna á að kvöldi og láta standa yfir nótt. Að morgni er svo þrifið með vatni og ofninn þurrkaður vel.

 

Sjálfhreinsandi ofn:
Í sjálfhreinsandi ofna má hvorki nota efni á hliðar hans eða loft en botninn er þrifinn eins og um venjulegan ofn væri að ræða.

 

Gler í ofnplötum
Kristalssápa eða uppþvottalögur er bestur í þetta verk. Takið rakan klút bleyttan með uppþvottalegi og leggið hann inn á glerið og látið standa yfir nótt. Þrífið svo vel með heitu vatni og þurrkið.

 

Eldavélarhellur

 

Keramik- og spanhellur:
Mikið úrval er af efnum til að þrífa keramik og spanhellur. Oft nægir þó að útbúa góða blöndu af heitu vatni og uppþvottalegi og þvo vel bleytta helluna. Glersköfur má nota á hörð óhreinindi eftir að bleytt hefur verið upp í óhreinindunum.

 

Gas- og venjulegar eldavélarhellur.
Matarsódi og heitt vatn duga best til að þrífa gas- og venjulegar eldavélarhellur. Notið svampa sem eru grófir öðru megin.

 

Kælitæki:
Áður en hafist er handa við að þrífa kælinn er best að byrja á því að henda öllum gömlum afgöngum sem ekki nýttust, skemmdu grænmeti og ávöxtum og þeirri matvöru sem komin er fram yfir síðasta neysludag. Einnig þarf að fara vel yfir matinn í frystikistum og skápum því oft hefur eitthvað lent neðst og er ólystugt í matreiðslu.

Forðist að nota sterk hreinsiefni á þessi tæki. Matarsódi blandaður volgu vatni virkar mjög vel til að þvo innan í kælum og frystum. Athugið að þegar verið er að afþíða frysta er gott að setja handklæði í botninn og láta það draga í sig raka. Skálar og föt með heitu vatni flýta mjög fyrir afþíðingunni.

Ef ólykt í ísskápnum hverfur ekki þrátt fyrir góð þrif getur lausnin verið að setja skál með sítrónuvatni inn í skápinn og láta standa yfir nótt, en einnig eru til efni í apótekum eins og Rodalon sem sótthreinsar loftið í ísskápnum.

 

Eldhúsvaskar:
Það er óþarfi að nota dýr efni til að þrífa vaskinn. Lyftiduft og uppþvottabursti virkar best. Nuddið vaskinn vel og látið standa í nokkrar mínútur. Ef vaskurinn er nuddaður með sítrónu næst fallegur gljái.  

Til baka

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.

Samþykkja