Content

 

Húsráð: Örbylgjuofninn hreinn án fyrirhafnar

Merki Húsráðs

Við hjá Hreint þekkjum erfiða bletti, óhreinindi sem vilja ekki hverfa sama hvaða efni eru notuð og matarleifar sem virðast aldrei ætla að losna. En við þekkjum líka allar bestu leiðirnar sem vinna á þessum vandamálum.

Flestir kannast eflaust við að trassa það aðeins of lengi að þrífa örbylgjuofninn. Margir eru með ofnana inni í smekklegum skápum svo þeir þurfa ekki að horfa á ástandið á þessum heimilistækjum sem eru í sífelldri notkun. Þegar fólk þarf að nota ofnana fitjar það upp á nefið og lofar sjálfu sér að þrífa þá innan skamms. En svo líður tíminn og slettur og blettir safnast upp í ofnunum. Þegar loksins er farið í verkið getur gengið erfiðlega að vinna á óhreinindunum.

Við hjá Hreint könnumst við vandamálið og kunnum lausn sem þú ættir að prófa. Það eina sem þú þarft til verksins er skál sem má fara í örbylgjuofn, smá vatn og ein sítróna. Dýr hreinsiefni eru óþörf og því berst engin lykt af af ræstingavörum út úr örbylgjuofninum næst þegar þú ætlar að nota hann.

Aðferðin er einföld

Settu 1,5 - 2 dl af köldu vatn í skál. Skerðu sítrónu í tvennt og kreistu safann úr henni út í vatnið. Þegar þú ert búinn að því settu þá báða helmingana út í vatnið í skálinni. Settu svo skálina inn í örbylgjuofninn.

Stilltu örbylgjuofninn á mesta hita í þrjár mínútur og settu í gang. Þegar tíminn er liðinn áttu alls ekki að opna hann. Nú er hann fullur af gufu og blettirnir eru að losna. Fáðu þér frekar kaffibolla, skoðaðu dagblað eða vafraðu um á Facebook í 15 mínútur eða svo á meðan sítrónan vinnur á leiðinlegu blettunum. Ef þú ert í stuði þá getur þú líka notað tímann til að þrífa eitthvað annað í eldhúsinu!

Þegar ofninn hefur verið lokaður í um 15 mínútur er kominn tími á að ná í tusku eða góðan og rakadrægan eldhúspappír. Opnaðu ofninn. Taktu skálina með sítrónuvatninu út úr ofninum (ekki hella vatninu strax!) og allt annað sem hægt er að fjarlægja (snúningsdiskinn og brautin undir honum). Næsta skref er að strjúka innan úr örbylgjuofninum.

Sítrónuvatnið á að losa svo vel um alla bletti að þeir hreinlega renni af. Ef einhverjir blettir eru þrjóskari en aðrir má bleyta tuskuna eða eldhúspappírinn aðeins í sítrónuvatninu og nudda þá svolítið. Það þarf ekki mikið átak svo þeir hverfi.

30 mínútur en mjög lítil fyrirhöfn

Þegar örbylgjuofninn er orðinn tandurhreinn að innan þarftu aðeins að þrífa snúningsdiskinn og þurrka. Síðan þarf að strjúka utan af örbylgjuofninum og skápnum sem hann er í.

Allt verkið ætti ekki að taka meira en um 30 mínútur, þar af fara um 18 mínútur í það að bíða eftir því að ofninn og sítrónuvatnið sjá um að losa um óhreinindin Þessar 18 mínútur notar þú í eitthvað annað, svo sem að rápa um á netinu, spjalla við vini og vandamenn á Facebook eða lesa blað dagsins.

 

Til baka

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.

Samþykkja