Fróðleikur

Húsráð: Notaðu uppþvottavélina meira

Hreint ehf.

Hreint ehf.

24. júlí 2018

Uppþvottavélar eru til á mörgum íslenskum heimilum. Þar nýtast þær flesta daga til að þvo matarleifar af diskum, glösum og hnífapörum. Við hjá Hreint erum alltaf á höttunum eftir leiðum til að nýta bjargráðin betur og vitum að hægt er að þvo ýmislegt fleira en mataráhöld í uppþvottavélinni. Dagleg þrif heima fyrir geta orðið einfaldari með að nýta uppþvottavélina meira.

Flestir vita að það er gott að stinga uppþvottaburstanum af og til í uppþvottavélina til að hreinsa hann rækilega. Það sama á við um svampa sem sumir nota til að skrúbba matarleifar og þrífa í kringum vaskinn. Ef svamparnir eru heillegir má skella þeim í hnífaparakörfuna og hafa í uppþvottavélinni næst þegar hún er sett í gang.

Margskonar leikföng úr plasti hafa líka gott af þvotti. Tindáta og annað smálegt er gott að setja í netpoka sem notaðir eru í hefðbundnum þvottavélum. Stærri leikföng geta legið í efri grindinni eða staðið í hnífaparakörfu. Þegar leikföng eru þvegin í uppþvottavélinni er gott að stilla á lágan hita, flest leikföng þola vel 30-40 gráðu hita. Það gæti verið gott að prófa fyrst eitt leikfang áður en allt safnið er sett í vélina, því plast og plastleikföng eru misjöfn að gæðum.

Það sama gildir um leikföng dýranna okkar. Ef þau eru úr plasti er ekkert að því að þrífa af þeim slefið og sýklana með því að skella þeim í uppþvottavélina.

Þrífðu ísskápinn og viftuna
Það er líka gott að setja hillurnar úr ísskápnum í uppþvottavélina, ef þær komast inn í vélina með góðu móti, þegar ísskápurinn er þrifinn. Það sparar talsverða vinnu og skilar betri árangri en að þvo með bursta í vaskinum. Plastskúffur og annað lauslegt inni í ísskápnum má yfirleitt líka fara í uppþvottavélina. Gætið að því að ef það er mjúkt gúmmí á einhverju er gott að sleppa því að þurrka það í uppþvottavélinni því gufan getur skemmt það.

Viftuhlífar verða oft andstyggilega óhreinar og fátt leiðinlegra en að skrúbba fitu af þeim. Grindurnar mega flestar fara í uppþvottavélina og engin ástæða til að hamast við að hreinsa fituna af vélin getur gert það fyrir mann.

Margir kannast við óhrein tannburstaglös og sápuhaldara á baðherbergjum sem safna á sig tannkremi og sápuleifum. Það er auðvelt að skella þessu öllu saman í uppþvottavélina við tækifæri til að losna við óhreinindin, fyrirhafnarlaust. Það er fleira á baðherberginu sem mætti fara í uppþvottavélina, til dæmis greiður og plastburstar hvers konar. Munið bara að hreinsa hárin burt áður en þið setjið greiðurnar og burstana í hnífaparakörfuna.

Lykillinn að hreinum lykli
Lyklar safna á sig óhreinindum og sýklum, en við þurfum samt að handleika þá oft á dag. Hvenær þreifst þú lyklana þína síðast? Sennilega aldrei. Nú getur þú bætt úr því með því að setja lykla sem ekki eru með rafbúnaði í hnífaparakörfuna.

Það er ýmislegt sem má fara í uppþvottavélina sem við höfum ekki leitt hugann að. Til viðbótar við það sem nefnt hefur verið hér að ofan má nefna plastblóm, lítil garðáhöld og verkfæri með málm- eða plastskafti. Það er um að gera að prófa sig áfram, en munið líka að það er ýmislegt sem ekki þolir uppþvottavélina. Þú ættir til dæmis aldrei að setja beitta hnífa, tréáhöld, pönnur og fleira í uppþvottavélina.

Næsta húsráð: Vorhreingerning