Content

 

Húsráð: Heimagerð hreinsiefni

Merki -husrads

Við hjá Hreint notum úrvals vörur til ræstinga. Við erum Svansvottuð og leggjum mikla áherslu á að nota umhverfisvænar vörur. Við vitum líka að í venjulegum heimilisþrifum þarf oft ekki að nota dýr og sterk efni til að þrífa. Oft er hægt að nota umhverfisvænar lausnir og blanda saman hráefnum sem nú þegar eru til heima til þess að búa til frábær hreinsiefni. Hér höfum við tekið saman nokkrar uppskriftir.

Borðedik 

Edik hefur lágt sýrustig sem leysir upp óhreinindi og sápuleifar en er líka svo mildur að hægt er að nota hann í blöndu til að þrifa harðviðargólfefni. Edikið er líka náttúrulegur lyktareyðir sem dregur í sig lyktina en hylur hana ekki. Edik lyktin hverfur svo um leið og það þornar. Þar sem það eru engin litarefni í ediki skilur það ekki eftir neinn lit í fúgunni mill flísa.

Heimagerður hreinsiúði
1 bolli borðedik
1 bolli vatn

Þessa lausn má nota í eldhúsinu til að þrífa eldhúsbekkina, helluborð og hellur og veggi. Á baðherberginu nýtist lausnin til að þrífa borðin á innréttingum, gólfin, sturtur, utan á salernisskálum og næstum hvað sem er. Ef flöturinn er mjög óhreinn er ráð að verma lausnina þangað til hún verður volg, sprauta á flötin og láta standa í 10-15 mínútur og nudda svo óhreinindin af.

Óblandað edik

Óblandað borðedik, beint úr brúsanum, leysir erfiðari þrifvandamál á augabragði. Notið óblandað borðedik til þess að þrífa innan úr salernisskálinni. Byrjið á því að hella kröftuglega úr fötu af vatni til þess að tæma skálina af vatni. Hellið edikinu um skálina og notið klósettbursta til að hreinsa burt óhreinindi og lykt.

Ef sturtuhausinn hefur stíflast vegna uppsöfnunar steinefna og kalks er hægt að nota óblandað edik til að bjarga málunum. Settu ¼ til ½ bolla af ediki í poka, settu hausnum ofan í og láttu standa í minnst tvo tíma, helst yfir nótt. Skolaðu svo hausinn og nuddaðu hann til að fá fallegan gljáa.

Matarsódi

Þar sem matarsódi er grófur og eyðir lykt er hann tilvalinn valkostur við dýr og óheilsusamleg hreinsiefni.

Stráðu matarsóda á rakan svamp og notaðu til að þrífa ljótar rendur úr baðkarinu, hreinsa baðherbergisvaskinn og til að ná fram gljáa á stáleldhúsvöskum. Ef óhreinindin eru mjög föst er ráð að búa til krem úr matarsódanum og vatni og láta það liggja á óhreinindunum í 10 til 20 mínútur.

Ef rennslið er orðið hægt í niðurföllum má setja hálfan bolla af matarsóda ofan í niðurfallið og hella rétt nægu heitu vatni ofan í niðurfallið svo matarsódinn renni niður. Látið standa í minnst tvo tíma, en helst yfir nótt, og látið renna vel af heitu vatni. Athugið að þetta ráð dugir ekki fyrir stífluð niðurföll og getur gert vandann verri.

Heimagerður glerúði

Í apótekum fæst spritt sem flestir nota til sótthreinsunar. En spritt hentar líka einkar vel til þrifa. Búðu til glerúða sem er örugglega sá besti sem þú hefur prófað.

1 bolli spritt
1 bolli vatn
1 teskeið borðedik

Hristið saman og notið á gler, spegla og krómaða fleti. Virkar líka einkar vel á keramik flísar.

 

Prófaðu þessi ráð og segðu skilið við dýr og óheilsusamleg hreinsiefni og notaðu umhverfisvænar lausnir í þeirra stað. 

Til baka

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.

Samþykkja