Content

 

Húsráð: Gátlisti fyrir dagleg þrif

Merki Húsráðs

Við hjá Hreint erum snillingar í ræstingum. Fátt finnst okkur skemmtilegra og við höldum áfram þegar heim er komið. Við höfum áður miðlað til ykkar leiðbeiningum um stórhreingerningar, til dæmis fyrir jól eða á vorin. Sem betur fer þarf ekki alltaf leggja í stórhreingerningar, því síður ef heimilinu er alltaf haldið fínu. Á heimasíðunni Realsimple.com er gátlisti um hvernig við getum haldið heimilinu hreinu og fínu og varið til þess aðeins þrjátíu mínútum á dag. Við tókum upplýsingarnar saman og færum ykkur þær hér á íslensku og staðfærðar fyrir íslenskar aðstæður.

Við mælum með því að gátlistinn sé prentaður út og notaður þegar þrifið er.

Eldhúsið

1. Tæmdu eldhúsvaskinn og þrífðu hann (5 mínútur).
Ekki leyfa óhreinu leirtaui að safnast upp. Þvoðu upp jafnóðum eða settu í uppþvottavélina. Þerraðu svo vaskinn að innan með tusku eða svampi.
2. Þurrkaðu af eldhúsbekknum og eldavélinni (1 mínúta).
Notaðu hreina og raka borðtusku til að þurrka af borðinu og eldavélinni. Ef slettur eru á borðum gætirðu þurft að nota hreinsiefni.
3. Hreinsaðu bletti af gólfi (2 mínútur).
Geymdu gólfþrifin til helgarinnar en notaðu tuskuna sem þú notaðir til að þrífa borðið til þess að þrífa upp bletti sem gætu verið á gólfinu. Óhreinindi laða að sér meiri óhreinindi svo aldrei skyldi fresta því að þrífa bletti af gólfum. Settu svo tuskuna í þvott.
4. Brjóttu saman viskustykkin eða hengdu þau upp (30 sekúndur).
Jafnvel þó viskustykkin séu hrein skapar það óreiðu að hafa viskustykkin í hrúgu á borðunum. Gefðu þér andartak til þess að ganga snyrtilega frá þeim.

Baðherbergið


1. Þurrkaðu úr vaskinum (30 sekúndur).
Ef þú notar blautþurrkur fyrir andlitið geturðu notað þær eftir notkun til að þurrka úr handlauginni og af krananum. Þú getur einnig notað þvottaklút eða eldhúsrúllu.
2. Þrífðu slettur af speglinum (15 sekúndur).
Slettist tannkrem á spegilinn? Það er lítið mál því þú getur notað andlitsþurrkuna á spegilinn líka. Já, eða glerúða og pappír. 
3. Þurrkaðu af klósettsetunni og skálarbrúninni (15 sekúndur).
Notaðu áfram sömu andlitsþurrkuna, en láttu þetta verða hennar síðasta verk. 
4. Skrúbbaðu létt úr klósettskálinni (15 sekúndur).
Ef þú sérð óhreinindi eða ef vatnshringur er farinn að myndast í skálinni skaltu nota klósettburstann.
5. Notaðu gluggasköfuna á sturtuhurðina (30 sekúndur).
Notaðu gluggasköfu til að þurrka vatnið af sturtuhurðunni. Það hindrar að hún verði skýjuð. 
6. Skolaðu sturtuna eða baðkarið og sturtuhengið (15 sekúndur).
Skolaðu sturtuna eftir hverja notkun, það minnkar uppsöfnun kísils og minnkar erfiðið við þrifin síðar.

Svefnherbergið

1. Búðu um rúmið (2 mínútur).
Fátt er ósnyrtilega en óumbúið rúm. Af sjálfu leiðir að um leið og búið er að búa um verður herbergið fallegra og snyrtilegra.
2. Brjóttu saman eða hengdu upp notuð föt, gakktu frá skartgripum (4 mínútur).
Enn betra væri að standast hvötina að fleygja þeim frá sér! Hví ekki að ganga frá fötunum jafnóðum?
3. Lagaðu til á náttborðinu (30 sekúndur).
Farðu með vatnsglas næturinnar í eldhúsið, settu gleraugun ofan í skúffu og raðaðu lesefninu fallega.

Stofan


1. Frískaðu upp á sófann (2 mínútur).
Sófar eru oftast það sem fólk tekur fyrst eftir þegar það kemur inn í stofu. Því er mikilvægt að hann sé ekki í óreiðu. Hristu púðana og brjóttu saman teppi.
2. Hreinsaðu upp mylsnu með ryksugu (1 mínúta).
Fljótlegast er að nota handryksugu ef hún er til. Veittu þeim svæðum sem eru auðsjáanlegir eins og sófapúðar, sófaborðið og mottum í miðju herbergisins. Svipastu um eftir rykhnoðrum.
3. Þurrkaðu af borðum og skápum ef þú sérð fingraför (1 mínúta).
Notaðu örtrefjaklút til að þurrka rykið og vota tusku ef eitthvert kám er.
4. Raðaðu bókum og tímaritum (2 mínútur).
Fleygðu gömlum dagblöðum í endurvinnslu og smalaðu fjarstýringum á einn stað (helst ofan í skúffu ef kostur er á).
5. Komdu reiðu á óreiðuna (5 mínútur).
Virkjaðu börnin í að ganga frá leikföngum sínum og öðru því sem hægt er að hrasa um.

Til baka

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.

Samþykkja