Content

 

Hreint styrkir Votlendissjóðinn

_MG_3262

Hreint afhenti í dag, á 35 ára afmælisdegi félagsins, styrk til Votlendissjóðs en hann hefur það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda úr náttúru Íslands með endurheimt votlendis. Með styrknum er hægt að stöðva árlega losun á 100 tonnum af gróðurhúsalofttegundum en það jafngildir því að Hreint sé að kolefnisjafna notkun eigin bifreiða og flugferðir starfsmanna í tvö ár. Styrkurinn undirstrikar samfélagslega ábyrgð Hreint við að minnka vistsport sitt. Hreint er fyrsta fyrirtækið í ræstingaþjónustu á Íslandi sem styrkir Votlendissjóðinn.

Áskorun allra þjóða, fyrirtækja og einstaklinga
Stærsta áskorun samtímans er að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda sem veldur hlýnun jarðarinnar. Á Íslandi er talið að 2/3 af allri losun gróðurhúsalofttegunda komi frá framræstu eða röskuðu votlendi. Votlendissjóðurinn  hefur það hlutverk að vinna að endurheimt votlendis í samstarfi við landeigendur, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagssamtök og einstaklinga.

Mikil losun frá framræstu landi
Votlendi þekur um 20% af grónu flatlendi Íslands. Stór hluti votlendis á láglendi hefur verið raskað með framræslu. Mest af framræslunni fór fram um og eftir miðja síðustu öld þegar ríkið styrkti framkvæmdina. Grafnir hafa verið um 34.000 km af skurðum sem röskuðu um 4.200 km2 lands. Áætlað er að nú séu um 15% eða 570 km2 lands nýtt til jarðræktar. Losun frá framræstu landi er langstærsti einstaki losunarþáttur gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og er talinn vera yfir 70% af þekktri heildarlosun hérlendis sem hægt er að stýra.

Endurheimt votlendis viðurkennd aðferð
Endurheimt framræsts votlendis er ein af þeim aðgerðum sem IPCC viðurkennir sem gilda aðgerð til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Með endurheimt votlendis er leitast við að stífla eða fylla upp skurði og þannig færa stöðu grunnvatns sem næst því sem það var fyrir framkvæmd. Í kjölfarið má gera ráð fyrir að búskapur gróðurhúsalofttegunda og lífríki færist nær því sem fyrir var.

Hreint sýnir samfélagslega ábyrgð
Hreint tekur umhverfismál og samfélagslega ábyrgð alvarlega. Félagið er vottað með norræna gæða- og umhverfismerkinu Svaninum og uppfyllir því strangar kröfur um efnainnihald og lágmörkun á notkun hættulegra efna við ræstingar. Auk þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni við loftlagsbreytingar með endurheimt votlendis á Íslandi, vill Hreint leita allra leiða til þess að minnka vistsport sitt í framtíðinni.

 

Á meðfylgjandi mynd er Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri Hreint og Eyþór Eðvarðsson, formaður stjórnar Votlendissjóðsins. 

Til baka

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.

Samþykkja