Content

 

Hreint styrkir Barnaspítalasjóð Hringsins

Ernir 20180904_MG_2873

Hreint heldur á hverju ári golfmót fyrir viðskiptavini, birgja og velunnara. Mótið í sumar var haldið föstudaginn 8. júní og var það vel sótt að venju. Keppni var hörð og spennandi fram að síðustu holu. Sú hefð hefur skapast að aðalverðlaun mótsins er styrkur til góðgerðarmálefnis sem sigurvegarinn velur og nemur fjárhæðin 100.000 krónum.

Rúnar Ágúst Svavarsson, þróunar- og markaðsstjóri Hreint, segir að þetta sé fjórða árið í röð sem verðlaun mótsins renna til góðgerðarmála og að í fyrra hafi fjárhæðin verið hækkuð um helming. „Við hjá Hreint tökum samfélagslega ábyrgð okkar mjög alvarlega og fögnum því að geta látið gott af okkur leiða með þessum hætti.“ Þess má geta að Hreint fagnar 35 ára afmæli á þessu ári.

Keppendur mættu vel stemmdir til leiks þennan fagra föstudag enda vissu þeir að það var til mikils að vinna. Hart var barist í blíðunni og hvert snilldarhöggið eftir annað leit dagsins ljós á iðagrænum Urriðavelli Golfklúbbsins Odds. Eftir skemmtilega keppni stóð Ragnar Z. Guðjónsson uppi sem sigurvegari. Ragnar vinnur hjá Grey Team Íslandi og valdi hann að styrktarféð rynni til Barnaspítalasjóðs Hringsins.

Anna Björk Eðvarðsdóttir, formaður Hringsins, tók á móti Rúnari og Ragnari í dag og veitti styrknum frá Hreint að fjárhæð 100.000 krónum viðtöku. Þakkaði hún kærlega fyrir hlýjan hug til Hringsins og höfðinglega gjöf í sjóðinn.

Hringurinn er kvenfélag, stofnað árið 1904. Félagið hefur að markmiði að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna. Aðalverkefni félagsins um áratugaskeið hefur verið uppbygging Barnaspítala Hringsins og rennur allt fé sem Hringskonur safna, gjafir og áheit óskipt í Barnaspítalasjóð Hringsins.

Á myndinni má sjá þau Rúnar Ágúst Svavarsson hjá Hreint, Önnu frá Barnaspítalasjóði Hringsins og Ragnar frá Grey Team Íslandi þegar styrkurinn var afhentur.

Til baka

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu.

Samþykkja